DocumentsDate added
Höfundur: Jakob Jónsson frá Hrauni
Leikstjórn: Indriði Waage
Frumsýning: 22.nóvember 1940 hjá Leikfélagi Reykjavíkur sem sýndi verkið 6 sinnum.
Öldur var fyrsta leikritið eftir séra Jakob Jónsson sem sýnt var hjá Leikfélagi Reykjavíkur. Áður hafði leikritið verið sýnt í Íslendingabyggðum í Kanada, þar sem Jakob þjónaði um tíma. Leikritið fjallar um björgun úr sjávarháska. Séra Jakob Jónsson var mikilvirkt skáld og var faðir tveggja þekktra skálda, Jökuls og Svövu og í þriðju kynslóð eru einnig þekkt skáld og rithöfundar.
Höfundur: Loftur Guðmundsson
Leikstjórn: Indriði Waage
Frumsýning: 1. október 1939 hjá Leikfélagi Reykjavíkur.
Fjöldi sýninga 15
Leikritið Brimhljóð hefst í íslenskri verbúð, efniviðurinn þjóðinni langkunnur, enda átti leikritið eftir að rata á leikhúsfjalir víða um land, m.a. hjá Leikfélagi Akureyrar og á heimaslóðum höfundar, Vestmannaeyjum. Loftur Guðmundsson kom síðar mikið við leiklistarsögu þjóðarinnar og skrifaði bæði fyrir svið og útvarp auk þess að vera leiklistargagnrýnandi hjá Alþýðublaðinu.
Höfundur: Indriði Einarsson
Leikstjórn: Jens B.Waage
Frumsýning: 13. febrúar 1903 hjá Leikfélagi Reykjavíkur sem sýndi verkið 9 sinnum
Skipið sekkur var fyrsta leikritið sem Leikfélag Reykjavíkur tók til sýninga. Leikritið gekk enn fyrir fullu húsi þegar mikið sjóslys varð á Faxaflóa og var þá sýningum hætt, þar sem ekki þótti viðeigandi að halda þeim áfram. Í leikritinu var í fyrsta sinn frumsamin íslensk tónlist fyrir leikfélagið en uppfrá því varð leiksviðið einn helsti vettvangur íslenskra tónskálda.
Höfundur: Geir Vídalín (1761-1823) Samið fyrir skólapilta Reykjavíkurskóla um 1790
Brandur eða Bjarglaunin, eins og verkið hét upphaflega, eftir Geir Vídalín er fyrsta leikritið á íslensku sem lýsir sambýli Íslendinga við hafið. Leikritið er jafnframt það fyrsta sem er alvarlegs eðlis og eitt elsta leikritið sem varðveist hefur. Geir Vídalín mun hafa samið verkið um 1790, hugsanlega fyrir skólapilta, en skólinn var þá fluttur frá Skálholti á Hólavelli. Geir kom heim frá námi árið 1789 og varð dómkirkjuprestur 1791.