There are no translations available.
Við sjávarsíðuna Röð útvarpsþátta um íslenska strandmenningu
Forsvarsmenn Fishernet.is hafa unnið í samstarfi við Pétur Halldórsson útvarpsmann á Ríkisútvarpinu (RÚV) útvarpsþætti þar sem sjósókn og strandmenning Íslendinga er meginþemað. Pétur hefur séð alfarið um efnistök þáttanna. Hann hefur farið vítt og breitt og tekið viðtöl við fólk sem hefur beint eða óbeint lifað af sjósókn og/eða strandmenningu. Þættirnir eru 40 talsins og er hægt að hlusta á þá í heild sinni hér að neðan (smella á krækjurnar), auk upplýsinga um efnistök og viðmælendur Péturs í þáttunum.
26. júlí 2011 - 1. þáttur: Lagning ritsímans 1906 og Hótel Aldan á Seyðisfirði
Gengið er um Tækniminjasafn Austurlands með Pétri Kristjánssyni (1952-) safnstjóra sem segir aðallega frá þeirri byltingu sem varð þegar ritsíminn kom til Íslands árið 1906. Kannski má segja að nútíminn hafi þá hafist á Íslandi. Einnig er rætt við hjónin Klas Hjære Poulsen (1975-) og Guðrúnu Gísladóttur (1971-), sem eru meðal eigenda Hótels Öldunnar á Seyðisfirði og sjá um rekstur þess. Hótelið er í nokkrum gömlum og fallegum húsum á
2. ágúst 2011 - 2. þáttur : Stígandaslysið 1967
Rætt er við Gunnar Kristinsson (1947-), formann Sjómannafélags Ólafsfjarðar og fyrrverandi sjómann. Gunnar var einn skipverja á togaranum Stíganda frá Ólafsfirði sem fórst í maí 1967 á heimleið af síldarmiðum norður undir Svalbarða. Skipverja rak stjórnlaust á björgunarbátum í á fimmta sólarhring áður en þeir fundust og atburðurinn varð til þess að komið var á tilkynningaskyldu hjá sjómönnum hér á landi.
9. ágúst 2011 - 3. þáttur: Síldveiðar 1940
Rætt er við Gunnar Árnason (1924-), fyrrverandi kaupmann á Akureyri. Hann segir frá sumrinu 1940 þegar hann fór á síldveiðar á báti frá Ólafsfirði sem faðir hans átti hlut í. Fyrst segir frá atviki þegar nokkrir félagar sem munstraðir höfðu verið á sjóinn voru að æfa sig í róðri og björgunarstörfum í firðinum og stórar öldur komu skyndilega og hvolfdu bátnum. Þrír fórust og lík eins þeirra fannst aldrei. Þetta aftraði Gunnari þó ekki frá því að fara á sjóinn þetta sumar. Hann segir frá landlegum og ýmsum atvikum á Raufarhöfn, sundspretti í vatnsbóli Raufarhafnarbúa, einnig ýmsu skondnu sem kom fyrir um borð, til dæmis hvað skipsfélögunum þótti skrýtið að sjá Gunnar tannbursta sig, atviki þegar sótt var vatn í land á Skálum á Langanesi, einnig landlegu á Skagaströnd og fleiru.
16. ágúst 2011 - 4. þáttur: Selatangar
Fjallað er um strandmenningu og -minjar á Reykjanesi, einkum á Selatöngum og annars staðar í grennd við Grindavík. Ómar Smári Ármannsson (1954-) fornleifafræðingur hefur ásamt áhugahópi um varðveislu strandminja á Reykjanesi skráð í rituðu máli og á uppdráttum minjar um útgerð og fiskvinnslu við strönd Reykjanesskagans. Hann hélt erindi á málþingi um strandmenningu sem Íslenska vitafélagið hélt 26. mars 2011 í Saltfisksetrinu í Grindavík. Við heyrum erindin þrjú af málþinginu, nokkuð stytt. Fyrst segir Ómar Smári frá Selatöngum og varðveislu strandminja, þá ræðir Jón Þ. Þór (1944-) sagnfræðingur um Básendastríðin á Reykjanesi á sextándu öld, vopnuð átök Englendinga og Þjóðverja vegna fiskveiða og fiskverslunar í Grindavík og á Básendum sumarið 1532, og loks ræðir Agnes Stefánsdóttir (1970-), fornleifafræðingur hjá Fornleifavernd ríkisins um hvernig farið er með friðlýstar fornleifar í þjóðminjalögum og hvaða takmarkanir og möguleikar séu þar fólgnir.
5. ágúst 2011 - 5. þáttur: Lomberspil og smábátaútgerð á Borgarfirði eystra
Rætt er við Jón Björnsson (1935-) sjómann á Borgarfirði, sem man þar tímana tvenna, var til sjós en vann líka við bátasmíðar. En stundum gaf ekki á sjó og stundum voru lausar stundir. Þá var spilaður lomber. Jón var í annáluðum lomberklúbbi á Borgarfirði og spilaði með nokkrum öðrum. Hann segir frá klúbbi fjögurra lomberspilara sem stundum sátu við spilin kvöld eftir kvöld. Einnig er rætt við Jón Sigmarsson (1971-), sem rekur sauðfjárbú sitt með um fimm hundruð fjár, en er líka formaður á litlum fiskibáti, ekki ósvipað því sem var á árum og öldum áður þegar vel megandi menn, oftast bændur, áttu bátinn en réðu til sín formann og aðra áhöfn. Jón Sigmarsson er alinn upp á Desjarmýri en fór fyrst til sjós sextán ára gamall.
30. ágúst 2011 - 6. þáttur: Útgerð á Grenivík fyrr og nú
Í þættinum er rætt við Guðnýju Sverrisdóttur (1952-), sveitarstjóra Grýtubakkahrepps. Hreppurinn á fjögur til fimm hundruð þorskígildistonn af kvóta og þar var snemma tekin sú ákvörðun að sveitarfélagið skyldi kaupa kvótann til að halda honum í byggðarlaginu. Þetta hefur hjálpað til við að halda byggðinni við. Björn Ingólfsson (1944-) segir frá útgerðarsögu Grenivíkur sem hann hefur tekið saman í bók og Margrét Jóhannsdóttir (1941-) segir frá sjóbúð föður síns sem stendur nú sem safn á malarkambinum neðst í Grenivíkurþorpi. Þar var ekki bara beitt og veiðarfærin gerð klár, heldur voru líka haldin þar eftirminnileg böll.
6. september 2011 - 7. þáttur: Syðra-Lón og Skálar á Langanesi
Rætt er við Brynhildi Halldórsdóttur (1936-) á Syðra-Lóni, sjávarbýli sem er spölkorn utan við þorpið á Þórshöfn á Langanesi. Brynhildur giftist að Syðra-Lóni árið 1958. Hún segir frá búskapnum á fyrri tíð, hvernig sjórinn var sóttur samhliða kúa- og sauðfjárbúskap, talar um æðarvarpið sem var og er mikilvægur hluti af búskapnum á Syðra-Lóni, um árin sín sem hreppstjóri og fleira. Því næst er Guðbjörg Guðmundsdóttir (1932-) heimsótt. Hún hefur lengst af búið á Þórshöfn en ólst hins vegar upp á Skálum á Langanesi til níu ára aldurs. Þorpið á Skálum fór að mestu í eyði árið 1948 og endanlega 1955. Guðbjörg segir frá lífsbaráttunni á Skálum, rafmagnsleysi, vatnsburði, leikjum barnanna, óblíðum veðrum o.s.frv.
13. september 2011 - 8. þáttur: Sjómannskona og símadama á Siglufirði
Tvær konur á Siglufirði eru heimsóttar og muna báðar tímana tvenna. Farið er í heimsókn til gamallar sjómannskonu, Guðnýjar Friðfinnsdóttur (1932-). Hún var orðin fjögurra barna móðir 25 ára gömul, eiginmaðurinn alltaf á sjónum og staldraði stutt við í landi. Þá var gjarnan slett úr klaufunum þannig að Guðný og börnin höfðu sáralítið af heimilisföðurnum að segja. Guðný sagði frá tilveru sjómannskonunnar á árum áður, siglingu til meginlandsins með afla og fleiru. Einnig er rætt við símadömuna Halldóru Jónsdóttur (1933-). Hún heyrði atganginn á síldarplaninu strax í móðurkviði og var farin að hjálpa móður sinni við söltunina fjögurra til fimm ára gömul. Hún lærði öll handtökin og vann við söltun um hríð en síðan lengi á símstöðinni á Siglufirði löngu fyrir tíma sjálfvirks síma, hvað þá farsíma. Oft voru biðraðir langar eftir símtölum þegar fólkið var flest í síldinni á Siglufirði.
20. september 2011 - 9. þáttur: Síldarverksmiðja á Raufarhöfn
Sigurjón Jóhannesson (1926-), fyrrverandi kennari og skólastjóri á Húsavík, segir frá störfum sínum í síldarverksmiðjunni á Raufarhöfn á fimmta áratug tuttugustu aldar. Þar vann hann ýmis störf, miserfið og mishættuleg. Sigurjón ræðir um lífið í verksmiðjunni, rekur skemmtileg atvik en líka óhöpp þegar við lá að stórslys yrðu. Hann lýsir samfélaginu á Raufarhöfn, verslunum, skemmtunum, íþróttum, atviki þegar þýsk flugvél sleppti sprengjum á land nærri þorpinu og fleiru. Einnig segir hann frá því hvernig hann kynntist atvinnulífinu löngu fyrir fermingu, vann til dæmis við að ræsa síldarstúlkur, lærði svo að beita og fleira og fleira.
27. september 2011 - 10. þáttur: Síldveiðar og síldarmat
Rætt er við Hannes Baldvinsson (1931-), fyrrverandi síldarmatsmann á Siglufirði. Hannes ólst upp í síldarævintýrinu á Siglufirði og var farinn að taka til hendinni á þeim vettvangi á barnsaldri. Ungur fór hann tvö sumur til sjós á síldarskipum og segir frá því í viðtalinu, aðbúnaði um borð, matnum, netaviðgerðum og fleiru. Hann lærði síldarmat á námskeiði í Keflavík og vann við það um ellefu ára skeið, starfaði síðar hjá Siglósíld. Hann segir frá síldarmatinu, í hverju það fólst, atvikum sem upp komu, miklum ferðalögum og fjarveru frá fjölskyldunni og svo framvegis.
5. nóvember 2011 - 11. þáttur: Sigurður Pálsson á Baugsstöðum
Rætt er við Sigurð Pálsson (1928-), bónda og fyrrverandi sjómann á Baugsstöðum í Flóa. Baugsstaðir eru skammt austan Stokkseyrar og í landi þeirra stendur Knarrarósviti. Sigurður man eftir því þegar vitinn var reistur og þegar hann lýsti í fyrsta sinn í ágústlok 1939. Faðir hans, Páll Guðmundsson, bóndi og formaður, var vitavörður framan af en síðan tók Sigurður við og gætti vitans fram á tíunda áratug tuttugustu aldar þegar vitinn var orðinn sjálfvirkur og vitavarðarstöður voru að leggjast af. Sigurður segir frá sjómennskunni á litlum bátum sem gerðir voru út frá Loftsstaðasandi þar til um 1960 þegar sú útgerð lagðist endanlega af. Þegar mest var snemma á tuttugustu öldinni voru gerðir þarna út um 30 bátar, sjóbúðirnar stóðu í röðum og mikið um að vera. Sigurður náði í skottið á þessari menningu og sagt er frá staðháttum við Baugsstaði, sjómennskunni og ýmsu sem henni tengist, en líka rætt um vitann, gestagang þar, almenn vitavarðarstörf og fleira.
12. nóvember 2011 - 12. þáttur: Bátavefur Árna Björns Árnasonar
Árni Björn Árnason (1935-) segir frá uppvexti sínum á Grenivík þar sem hann kynntist ungur lífinu við sjóinn og fékk ungur áhuga á bátum og öllu sem þeim tengdist. Hann segir frá bátaútgerð á Grenivík sem var erfið í hafnleysinu þar, ræðir um bátasmíðar á Grenivík og fleira. Árni lærði vélvirkjun og vann við hana alla sína starfsævi á Akureyri, lengst af hjá Slippstöðinni. Hann náði í skottið af gufutækninni þegar hann var lærlingur í smiðju á Patreksfirði. Á síðari árum hefur hann unnið þrekvirki við að safna heimildum um báta og skip og líka um sögu bátasmíða. Í fyrstu safnaði hann aðallega heimildum um eyfirska trébáta og bátasmíðar en söfnunin hefur smám saman teygt sig víðar um Norðurland og einskorðast ekki lengur við trébáta. Einnig heyrist brot úr erindi sem Hörður Sigurbjarnarson (1952-) flutti á málþingi um strandmenningu sem haldið var í Sjóminjasafninu Víkinni 6. maí 2011. Hörður er framkvæmdastjóri Norðursiglingar á Húsavík og ræðir meðal annars um hvernig nýta má strandmenningu til að byggja upp nýja atvinnugrein í stað annarra sem hverfa.
19. nóvember 2011 - 13. þáttur : Tveir sjómenn á Þórshöfn
Rætt er við Odd Skúlason (1964-), sjómann á Þórshöfn. Oddur byrjaði á sjó sextán ára gamall og hefur stundað sjómennsku síðan. Hann er í lausamennsku og tekur þau pláss sem bjóðast. Áður fyrr var hann á vertíðum meðan sú menning var við lýði. Rætt er um líf sjómannsins og breytingar þennan aldarfjórðung sem Oddur hefur stundað sjóinn. Einnig er rætt um ástand mála á Þórshöfn. Þar er hugur í fólki og byggðin hefur staðið sterk síðustu árin. Einnig er rætt stuttlega við Agnar Vilhjálmsson (1933-), aldinn sjómann á Þórshöfn, sem einnig stundaði sjóinn alla sína starfsævi, byrjaði snemma, fór á vertíð síðla vetrar en reri frá Þórshöfn á sumrin og fram eftir hausti.
26. nóvember 2011 - 14. þáttur: Beitning á Húsavík og Fagridalur Vopnafirði
Rætt er við Kristbjörgu Héðinsdóttur (1922-) sem fædd er og uppalin á Húsavík og hefur alið mestan sinn aldur þar. Hún var enn á barnsaldri þegar hún fór að stokka upp og beita. Hún segir frá því að stúlkur hafi verið í meirihluta þeirra sem beittu undir Bakkanum á Húsavík þegar hún var ung. Kristbjörg var í línubandalagi með nokkrum stúlkum öðrum, svo að engin tapaði ef flæktist hjá henni til dæmis, og þessar vinkonur léku líka saman handbolta með góðum árangri. Kristbjörg segir frá ýmsu sem tengdist smábátaútgerðinni á árum áður, en líka síldarvinnu og verkun saltfisks. Þá er einnig rætt við Ingólf Lárusson (1915-) sem ólst upp í Fagradal í Vopnafirði frá níu ára aldri. Fagridalur var afskekktur bær en þar var mannmargt, yfirleitt tvær til þrjár fjölskyldur, því marga þurfti til að sækja sjóinn á árabátum og vinna ýmis störf. Ingólfur segir frá sjóróðri þegar fiskaðist vel, ræðir um fráfærur sem enn voru stundaðar í Fagradal þegar hann var strákur og fleira.
3. desember 2011 - 15. þáttur: Bjarnarhöfn, Baskar og Látraströnd 1
Farið er í heimsókn til Hildibrands Bjarnasonar (1936-), bónda í Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi. Hildibrandur segir sögu staðarins frá fornu fari til nútímans, þátt erlendra kaupmanna og sjómanna í þessari sögu í aldanna rás, farið er í kirkjuna sem á sér merka sögu og geymir merka gripi og loks í strandminjasafn Hildibrands. Rætt er við Trausta Einarsson (1955-) sagnfræðing um hvalveiðar Baska hér við land og sagt frá fornleifarannsóknum í Hveravík á Ströndum þar sem var hvalveiðistöð á 17. öld, líklega á vegum Baska. Loks er sagt frá eyðibyggðinni á Látraströnd við austanverðan Eyjafjörð þar sem voru mörg sjávarbýli fram á síðustu öld. Rætt er við Ásmund Hreiðar Kristinsson (1927-), bónda í Höfða í Grýtubakkahreppi, sem man eftir sér í frumbernsku þegar fjölskylda hans bjó í Hringsdal á Látraströnd.
10. desember 2011 - 16. þáttur: Gústaf Njálsson segir frá Glerárþorpi
Rætt er við Gústaf Njálsson (1930-), smið og byggingameistara, einn þeirra sem muna enn eftir lífinu í Glerárþorpi áður en það var sameinað Akureyri. Gústaf býr í Þverholti, aðeins fáum metrum frá Hvoli, þar sem hann ólst upp. Hann segir frá bænum Hvoli sem var reistur rétt upp úr aldamótunum 1900 og lífinu þar, sem var blanda af sjávarnytjum og hefðbundnum búskap með sauðfé, hænur og eina kú. Hann segir frá síldarverksmiðju Norðmanna sem var í Krossanesi og þangað fór hann stundum með nesti til pabba síns sem þar vann. Rætt er um samskiptin við Akureyringa sem litu nokkuð niður á Þorparana, Gústaf segir frá tundurdufli sem þeir félagarnir fundu og drógu á land, smábátaútgerð í Bótinni, fisksölu á Ráðhústorgi á Akureyri, andarnefju sem var skotin í Bótinni og hvernig konurnar notuðu olíuna úr henni til að lina gigt, nýtingu sjófugla, breskum og bandarískum hermönnum í stríðinu og fleiru og fleiru.
17. desember 2011 - 17. þáttur: Sjómenn á Norðfirði og saga byggðar á Ströndum
Flutt er gömul upptaka úr safni Ríkisútvarpsins frá árinu 1960 þegar Stefán Jónsson (1929-1990) var á ferð á Norðfirði og talaði þar við sjómenn og starfsfólk í fisksölu og fiskvinnslu. Rætt er við Ásbjörn Tómasson (Bjössa Tomm) (1905-1980) á trillunni Óskari, Sophus Gjöveraa (1890-1975) sem var frá Færeyjum, Halldór (Valgeir) Einarsson (1907-1990) frá Mjóafirði (Dóra sjó), Benedikt Sveinsson (1904-1973) sem rak fiskbúð fyrir Kaupfélagið Fram (áður bóndi í Firði Mjóafirði), Harald Brynjólfsson (1880-1966) vogarmann (fiskmatsmann), Sigurð Jónsson (1888-1975), elsta skipstjóra á Norðfirði, Þórarin Sveinsson (1918-1996), verkstjóra hjá frystihúsi SÚN, Fanneyju Gunnarsdóttur (1914-1991) sem vann í eftirlitinu hjá frystihúsi SÚN og Stefán Höskuldsson (1904-1985), starfsmann í frystiklefa hjá SÚN (reri trillu á sumrin þar til hann var gamall maður). Þá er rætt við Skúla Alexandersson (1926), fyrrverandi alþingismann og athafnamann á Hellissandi. Hann segir frá æsku sinni á bænum Kjós í Reykjarfirði á Ströndum þar sem var gamaldags sjávarbýli, róið til fiskjar á árabát og fiskurinn unninn heima. Næsti bær við er Djúpavík, þar sem Skúli man eftir því þegar síldarverksmiðjan mikla reis og fjörinu þegar verksmiðjan var tekin til starfa. Loks heyrist í Gunnsteini Gíslasyni (1932-), fyrrverandi oddvita Árneshrepps á Ströndum, brot úr ávarpi sem hann hélt í félagsheimilinu Árnesi í Trékyllisvík í júlí árið 2000 þegar Ólafur Ragnar Grímsson forseti var í opinberri heimsókn í Strandasýslu. Gunnsteinn ræðir um byggðasögu Árneshrepps og hvernig lífið á Ströndum var samofið sjónum og nytjum þess sem sjórinn og ströndin gaf.
24. desember 2011 - 18. þáttur: Elliðaey á Breiðafirði og varðveisla strandmenningar
Rætt er við Unni Láru Jónasdóttur (1935-) sem fædd er í Elliðaey og alin þar upp til 12 ára aldurs. Hún segir frá lífinu í eyjunni þegar hún var barn. Þar var gamaldags búskapur, slegið með orfi og ljá og nytjað það sem sjórinn og ströndin gaf af sér, róið til fiskjar, veiddur lundi, tekin egg og svo framvegis. Unnur segir frá viðbrigðunum þegar fjölskyldan flutti í Stykkishólm þar sem margt var frumstætt og ófullkomið á þeim árum, vatnssalerni sjaldgæf og neysluvatnið vont. Hún segir frá sjóróðrum föður síns og tilviki þegar faðirinn þurfti að lenda við fastalandið, en kom skilaboðum heim með því að senda tilkynningu í útvarpið. Talað er um útvarpið sem þurfti að fara með í land til að hlaða það, því rafmagnslaust var í Elliðaey. Unnur segir frá vandalausum gömlum manni sem faðir hennar skaut skjólshúsi yfir og var þeim börnunum góður og líka nýtilegur starfskraftur heima og fleira og fleira. Þá er í þættinum einnig flutt erindi Sigurbjargar Árnadóttur (1954-), formanns Vitafélagsins og verkefnisstjóra hjá Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, sem hún flutti á málþingi um báta og strandmenningu í Sjómannasafninu Víkinni vorið 2011. Sigurbjörg ræðir um gildi þess að varðveita strandmenningu, hlúa að henni og nýta.
31. desember 2011 - 19. þáttur: Krókaleið á Snæfellsnesi
Rætt er við nokkra Snæfellinga um Krókaverkefnið svokallaða, samvinnuverkefni á Snæfellsnesi sem fólst í því að leiða saman fólk í ferðaþjónustu og skyldum greinum til að miðla því sem strandmenning Snæfellsness hefur að bjóða. Rætt er við Margréti Björk Björnsdóttur (1966-), atvinnuráðgjafa í Snæfellsbæ, um verkefnið sjálft sem naut m.a. styrks Nýsköpunarsjóðs. Þá segir Jenný Guðmundsdóttir (1943-) frá Sjávarsafninu í Ólafsvík þar sem hún hefur ásamt fleira áhugafólki komið upp búrum með lifandi fiskum og öðrum sjávardýrum, safnað saman ýmsum munum sem tengjast sjómennsku og sjósókn, og að sumarið 2011 var rekin í safninu Sjávarkistan, fiskbúð með ýmsum afurðum matvælafyrirtækja á Snæfellsnesi. Því næst er rætt við Ólínu Gunnlaugsdóttur (1962-) á Ökrum sem tekið hefur Félagsheimilið Snæfell á Arnarstapa á leigu og er að byggja þar upp ferðaþjónustu með matsölu, upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn og safni sem einkum á að sýna muni frá sjöunda og áttunda áratug tuttugustu aldar. Ólína segir frá lífinu á Arnarstapa og Hellnum fyrr og nú, ræðir um smábátaútgerðina og ýmis einkenni staðarins, meðal annars matarmenningu. Loks er komið við í Sögumiðstöðinni í Grundarfirði þar sem Ingi Hans Jónsson (1955-) hefur byggt upp skemmtilegt safn um snæfellska sögu, meðal annars um sögu lífsins við sjávarsíðuna. Hann telur að bátavélin sé það sem kom Íslendingum frá fátækt gamla samfélagsins yfir í allsnægtir nútímans.
7. janúar 2012 - 20. þáttur: Minningar þriggja manna frá því fyrir 1950
Þrír menn sem allir voru á barnsaldri þegar þeir fóru á sjóinn segja minningar sínar frá því fyrir miðja tuttugustu öldina. Jakob Jakobsson (1931-) fiskifræðingur segir frá því að síld hafi verið höfð í matinn á æskuheimili hans á Norðfirði, hvernig hún var meðhöndluð og elduð. Hann segir líka frá sjómennsku með föður sínum og alnafna sem reri frá Strönd í Norðfirði. Jakob yngri var mótoristi hjá föður sínum nokkur sumur sem unglingur og við heyrum hvernig sjómennirnir notuðu mið og hvað þeir gerðu þegar þoka var og miðin sáust ekki. Jakob segir frá sjóhúsi föður síns og vinnunni þar og báti sem var smíðaður þar einn veturinn. Við heyrum líka í Skúla Alexanderssyni (1926-), athafnamanni á Hellissandi og fyrrverandi alþingismanni. Hann er alinn upp í torfbæ á bænum Kjós í Reykjarfirði á Ströndum og þar var auðvitað skekta eins og gekk og gerðist á bæjum á Ströndum og fiskmetis aflað, meðal annars til að birgja heimilið upp fyrir veturinn. Skúli man þegar síldarverksmiðjan mikla reis í Djúpuvík sem var næsti bær við Kjós og hann segir frá því ævintýri líka. Loks er rætt við Jón Ármann Héðinsson (1927-), fyrrverandi sjómann, útgerðarmann og þingmann. Hann er frá Húsavík og mun vera með þeim allrasíðustu sem muna enn selveiðarnar sem stundaðar voru á Skjálfanda. Jón lýsir veiðunum, útbúnaði, klæðnaði og fleiru. Hann fer líka með og kveður selavísur eftir Theodór Friðriksson.
14. janúar 2012 - 21. þáttur: Síldarrannsóknir Jakobs Jakobssonar
Rætt er við Jakob Jakobsson (1931-) fiskifræðing sem segir frá því þegar hann fór á fund Árna Friðrikssonar fiskifélagsstjóra til að fá ráðleggingar um nám í fiskifræði. Árni vildi ekki að Jakob færi til Noregs eins og hann hafði ætlað sér því að hann vildi að fiskifræðingar sæktu sér menntun víðar. Því fór Jakob til Bretlands, en upphaf síldarrannsókna hans var strax sumarið 1952, í upphafi námsferlis Jakobs í fiskifræðinni. Þá tók hann að sér síldarmerkingar á bát föður síns, Auðbjörgu NK. Síðan er nafn Jakobs nátengt síld og síldarrannsóknum og fáir þekkja betur en hann íslenska síldarsögu á síðari hluta tuttugustu aldar. Jakob segir frá síldarmerkingum, hvaða þýðingu þær höfðu til að sýna fram á tilvist norsk-íslenska síldarstofnsins og göngur síldarinnar kringum landið, hvernig menn björguðu þessum verðmæta stofni frá útrýmingu og fleira. Minnst er á samstöðu íslenskra síldarskipstjóra og hvernig þeir leiðbeindu hver öðrum við veiðarnar, til dæmis þegar sumir voru komnir með asdikkið svokallaða, fiskileitartæki sem sýndi hvar torfurnar voru í sjónum.
21. janúar 2012 - 22. þáttur: Sjómannadagsblað Snæfellsbæjar
Rætt er við Pétur Steinar Jóhannsson (1947-), ritstjóra Sjómannadagsblaðs Snæfellsbæjar, sem komið hefur út frá árinu 1987, fyrst sem sjómannadagsblað Ólafsvíkur en síðan kom sjómannadagsráð Hellissands til liðs við ráðið í Ólafsvík og úr varð sameiginleg blað. Pétur segir frá efnisöfluninni, gildi þess að safna heimildum um lífið við sjávarsíðuna, nefnir dæmi um sögur af gleði og sorg sem rekið hefur á fjörur blaðsins og fleira. Því næst segir Konráð Alfreðsson (1952-), formaður Sjómannafélags Eyjafjarðar, frá því hversu stór dagur sjómannadagurinn var í Hrísey þegar hann ólst þar upp, segir frá sjómannsferli sínum, meðal annars vertíðum á Rifi og fjarvistum frá fjölskyldunni, en síðan segir Pétur Steinar Jóhannsson frá Sjómannagarðinum í Ólafsvík, sem er annar tveggja sjómannagarða á landinu, skrúðgarður og hátíðarsvæði helgað sjómönnum og sögu sjómennsku og sjómannslífs. Pétur er líka formaður sjómannadagsráðs Ólafsvíkur. Hinn sjómannagarðurinn er á Hellissandi og frá honum segir síðar í þessari þáttaröð.
28. janúar 2012 23. þáttur: Seyðisfjörður um og fyrir stríð
Rætt er við Einar J. Vilhjálmsson (1928-), fyrrverandi tollvörð í Garðabæ. Hann er Seyðfirðingur að uppruna og segir í þættinum frá sjómennsku, útgerð og fiskvinnslu á árunum fyrir seinni heimsstyrjöldina. Einar ræðir um Samvinnubátana svokölluðu, dönsku eikarbátana sem voru betur smíðaðir og sterkari en norsku furubátarnir, segir frá fyrstu launuðu vinnunni sinni þegar hann hjálpaði ömmu sinni við að hreinsa og þurrka sundmaga og hvernig hann eignaðist ungur árabát og byssu og fór á bæði fiskveiðar og fuglaveiðar. Fiskinn seldi hann til dæmis hermönnunum sem voru margir í stríðinu. Rætt er um stríðið og Einar segir frá loftárásum á olíubirgðaskipið El Grillo sem þýskar flugvélar vörpuðu sprengjum á. Hann man þegar skipið sökk og var sjálfur einn af þeim sem fiskuðu góss úr skipinu, ýmsan varning sem flaut á firðinum, kassa með slökkvitækjum en dýrmætastar voru bensín- og olíutunnurnar. Einar segir frá sjávarbýlinu Hrólfi sem var afbýli frá Sörlastöðum sem eru sunnan fjarðar í Seyðisfirði, nokkru utan við kaupstaðinn. Þar var bæði búskapur og útgerð með fiskvinnslu. Einar lýsir sjóhúsinu og útgerðinni, bátnum sem faðir hans gerði út og réð formenn til að róa honum ásamt áhöfn.
4. febrúar 2012 - 24. þáttur: Borgfirskur trillukarl og vestfirskt bátasafn
Rætt er við Eirík Gunnþórsson (1940-), sem róið hefur á trillum í hartnær sextíu ár frá Borgarfirði eystra. Eiríkur byrjaði um fermingu með föður sínum en eignaðist sjálfur bát rúmlega tvítugur og síðan hefur hann gert út eigin bát, fyrst trébáta en plastbáta frá því að þeir komu til sögunnar. Hann ræðir um breytingarnar sem orðið hafa á bátum og búnaði, hvernig hann lærði miðin sem ungur maður og að sigla eftir kompásnum, segir frá selveiðum sem hann stundaði um hríð, breytingum í sjónum, hnísunni sem sést lítið nú orðið og nýjum fisktegundum eins og makrílnum. Þá er fluttur lunginn úr erindi Jóns Sigurpálssonar (1954-), forstöðumanns Byggðasafns Vestfjarða, sem hann flutti á málþingi Íslenska vitafélagsins í Sjóminjasafninu Víkinni í Reykjavík í maí 2011. Þar sagði hann frá því hvernig safnið hefur ákveðið að varðveita gamla vestfirska báta með lifandi hætti, með öðrum orðum að nota þá til siglinga með ferðamenn, útsýnisferða, á skak og fleira.
11. febrúar 2012 - 25. þáttur: Uppeldi í vitum og sjómannalög
Rætt er við Helgu Erlu Erlendsdóttur (1953-), kennara og skólastjóra á Borgarfirði eystra, sem ólst upp í tveimur vitum, fyrst á Siglunesi við Siglufjörð og síðan á Dalatanga milli Mjóafjarðar og Seyðisfjarðar. Helga segir frá lífinu á þessum stöðum, skólanámi sem var bæði í farskóla og heimavist á Siglufirði. Móðir hennar er þýsk og Helga segir frá aðkasti sem þau systkin urðu fyrir á Siglufirði vegna þess, rætt er um hvernig matar var aflað með búskap, grænmetisrækt og sjósókn. Helga segir frá hafísvetrum, veðurathugunum, baráttunni við sjóinn og önnur náttúruöfl og fleira. Einnig er rætt við Rósu Margréti Húnadóttur (1982-), þjóðfræðing og safnvörð á Síldarminjasafninu á Siglufirði. Hún rannsakaði sjómannalög sem lokaverkefni í þjóðfræði frá Háskóla Íslands.
17. febrúar 2012 - 26. þáttur: Fornleifarannsókn og síldarfituvog
Þóra Pétursdóttir (1978-) fornleifafræðingur vinnur að doktorsverkefni þar sem hún rannsakar leifar gömlu síldarverksmiðjunnar á Eyri við Ingólfsfjörð. Þóra lýsir rannsókninni sem er óvenjuleg að því leyti að til rannsóknar eru leifar sem ekki eru orðnar 100 ára og teljast því ekki fornleifar í formlegum skilningi. Engu að síður er þetta rannsókn á mannvistarleifum frá merkilegu tímabili Íslandssögunnar. Einnig er rætt við Einar J. Vilhjálmsson (1928-), fyrrverandi tollvörð, sem starfaði á yngri árum við síldarvinnslu föður síns á Siglufirði og Raufarhöfn. Atvik höguðu því svo til að hann fór að smíða síldarfituvogir sem hann seldi víða um heim, til nágrannalanda en einnig til fjarlægra landa eins og Alaska og Japans. Einar segir frá voginni og lýsir því hvernig hún var notuð til að meta hversu feit síldin var.
25. febrúar 2012 - 27. þáttur : Drangey og Húsavík
Flutt er viðtal sem tekið var við Jón Eiríksson (1929-), bónda í Fagranesi á Reykjaströnd í Skagafirði, sumarið 2002. Þá var verið að steypa undirstöður fyrir nýja bryggju í Drangey því brimið hafði tekið gömlu bryggjuna um veturinn. Jón segir frá bryggjusmíðinni og hvernig sjórinn nagar stöðugt af eyjunni og breytir henni. Jón er á síðari árum frægur fyrir siglingar sínar með ferðafólk út í Drangey, en kynntist á árum áður þeirri fornu hefð að nýta fugl og egg í Drangey. Eyjan var kölluð vorbæra Skagfirðinga því þar mátti sækja mat þegar lítið var orðið eftir í búrum fólks eftir langan vetur. Jón ræðir um sigið sem hefur að mestu lagst af í eyjunni, segir sögur af Gretti og ýmislegt fleira. Síðan er rætt við Jón Ármann Héðinsson (1927-), fyrrverandi útgerðarmann og alþingismann. Jón Ármann ólst upp á Húsavík um og fyrir seinna stríð og segir frá lífinu á þeim árum, klæðnaði barnanna, leikjum þeirra við sjóinn, hvernig hann fór að róa um fermingu með föður sínum, hann segir frá áhrifum mannskaða á sjó á líf fólksins, fátæktinni á kreppuárunum þegar það sem sjórinn gaf var mjög dýrmætt, mikilli síldarvöðu árið 1944 og fleiru.
3. mars 2012 - 28. þáttur: Jón Ármann Héðinsson frá Húsavík
Jón Ármann Héðinsson (1927-), fyrrverandi sjómaður, útgerðarmaður og þingmaður með meiru, segir frá því þegar hann byrjaði ungur á sjó með föður sínum en fór fljótlega að huga að eigin útgerð, fyrst á árabátum og svo á stærri bátum og skipum. Jón stofnaði um 1954 ásamt Maríusi bróður sínum útgerðarfyrirtækið Hreifa sem gerði út tvö stálskip með nafninu Héðinn, hvort á eftir öðru. Jón Ármann segir frá síldveiðunum, tvílembingum og þrílembingum sem svo voru kallaðir, litlir síldarbátar sem unnu saman að veiðunum, einnig frá stærri síldarskipunum og snurpubátunum. Rætt er um stríðsárin á Húsavík. Hernaðarbröltið var ekki mjög áberandi þar, en á þeim árum var mikið hlustað á útvarpið og á talstöðvasamskipti sjómanna á hafi úti, meðal annars komið saman hjá skósmiðum bæjarins þar sem bæði voru útvarpstæki og talstöðvar til að hlusta á. Minnst er á Binna í Gröf sem var atkvæðamikill á Húsavík á þessum árum og Færeyinga sem þar komu líka á skipum sínum. Jón Ármann ræðir um nýtingu sjófugla og rjúpu og ræðir um eðlilega nýtingu þess sem sjórinn gefur.
10. mars 2012 - 29. þáttur : Bátasafn Breiðafjarðar
Farið er í litla skemmu við gömlu Áburðarverksmiðjuna í Gufunesi þar sem Bátasafn Breiðafjarðar hefur fengið aðstöðu til að halda námskeið í bátasmíði og bátaviðgerðum. Þar er rætt við Hafliða Má Aðalsteinsson (1949-), bátasmíðameistara frá Hvallátrum á Breiðafirði, sem kennir á námskeiðinu. Hafliði segir frá bátasmíðahefðinni við Breiðafjörðinn, mikilvægi bátanna sem samgöngutækja í Breiðafjarðareyjum og á bæjum sem áttu land að sjó við Breiðafjörð. Rætt er um bátasmíðahefðina, sérvisku mismunandi bátasmiða, mismunandi lag bátanna, smíðaaðferðir og svo auðvitað um varðveislu báta og bátasmíðaiðnarinnar. Bátasafn Breiðafjarðar kemur við sögu, verkefni sem lengi var draumur Aðalsteins Aðalsteinssonar, föður Hafliða, og er nú komið upp á Reykhólum. Þar eru gamlir bátar varðveittir og fólk sem er í félagsskapnum bak við safnið varðveitir marga báta með lifandi hætti, þ.e. með því að nota þá. Hafliði segir frá námskeiðshaldinu og einnig er rætt við Eggert Björnsson (1954-), sjómann og áhugamann um bátasmíðar. Eggert hefur lært bátasmíðar að nokkru leyti á eigin spýtur og með því að taka þátt í félagsskapnum við Bátasafn Breiðafjarðar. Hann er líka frístundamálari og liðtækur við að teikna uppdrætti sem notaðir eru við bátasmíðakennsluna. Nú er komin út bráðabirgðaútgáfa kennslubókar í bátasmíði sem notuð verður á námskeiðunum og að henni hafa þeir Hafliði og Eggert unnið, ásamt fleirum.
17. mars 2012 - 30. þáttur: Yst á Snæfellsnesi með Skúla Alexanderssyni
Í þættinum er slegist í för með Skúla Alexanderssyni (1926-), fyrrverandi athafnamanni og alþingismanni á Hellissandi. Skúli segir frá gömlu vörunum yst á Snæfellsnesi, meðal annars Gufuskálavör, þar sem enn má sjá kjalförin í fjörugrjótinu eftir bátana sem dregnir voru á land og ýtt úr vör öldum saman frá þessum stöðum. Skúli ræðir um höfnina í Krossavík sem komið var upp eftir að vélar komu í bátana og gömlu varirnar dugðu ekki lengur. Sú höfn dugði þó ekki stækkandi bátum og lagðist af þegar loks fékkst fé til hafnargerðar í Rifi. Litið er inn með Skúla í sjóminjasafnið í Sjómannagarðinum á Hellissandi þar sem varðveitt eru tvö áraskip, áttæringarnir Bliki, elsta varðveitta fiskiskip Íslendinga og Ólafur Skagfjörð. Á lóð safnsins er líka Þorláksbúð, endurgerð samnefnds kots sem stóð fram yfir miðja síðustu öld á Hellissandi, og hún er skoðuð í fygld með Skúla, sem hefur verið ötull í starfi sínu að minjamálum á Hellissandi og nágrenni.
24. mars 2012 - 31. þáttur: Gullfaxi SF-11 sekkur 1977
Rætt er við Hallgrím Guðmundsson (1962-), veitingamann á Akureyri, sem byrjaði á sjó um fermingaraldur og var síðan farsæll skipstjóri á íslenskum fiskiskipum og bátum um áratuga skeið. Fjórtán ára gamall var hann um borð í Gullfaxa SF-11 þegar hann sökk um þrjár sjómílur úti fyrir Skarðsfjöruvita. Gullfaxi sökk á örfáum mínútum en allir komust í björgunarbáta. Þremur var bjargað úr öðrum björgunarbátnum um borð í rannsóknarskipið Árna Friðriksson, en hina rak við illan leik upp í fjöru, þó án þess að nokkur slasaðist illa. Hallgrímur hefur ekki sagt svo ítarlega frá slysinu sem hann gerir í þættinum í þau þrjátíu og fimm ár tæp sem liðin eru síðan. Það var og er e.t.v. að einhverju leyti enn siður íslenskra sjómanna að þegja um atvik sem þessi, byrgja þau inni í stað þess að leita þeim útrásar og fá hjálp við að greiða úr tilfinningum sínum. Ekki þótti karlmennska að væla yfir hlutunum og ekki heldur að ræða um öryggismál, öryggisbúnað og slíkt.
31. mars 2012 - 32. þáttur: Síldarminjasafninu afhentur Slippurinn
Farið er á athöfn sem haldin var 29. mars 2012 þegar fulltrúar Fjallabyggðar afhentu Síldarminjasafninu á Siglufirði formlega gamla Slippinn í bænum til varðveislu og notkunar. Þar er meiningin að viðhalda þekkingu Íslendinga á bátasmíði og viðhaldi trébáta. Við athöfnina töluðu Guðmundur Skarphéðinsson (1948-), formaður stjórnar Síldarminjasafnsins, Ingvar Erlingsson (1978-), forseti bæjarstjórnar Fjallabyggðar, Anita Elefsen (1987-) sagnfræðingur, Rósa Margrét Húnadóttir (1982-), fagstjóri Síldarminjasafnsins og Örlygur Kristfinnsson (1949-), forstöðumaður Síldarminjasafnsins. Þau ræddu um þýðingu þessara tímamóta, um sögu bátasmíða og sögu Slippsins á Siglufirði, varðveislu strandmenningar og þekkingar á bátasmíðum og fleira. Loks er rætt við Njörð Jóhannsson (1945-), múrara og hagleiksmann á Siglufirði, sem er sjálflærður bátasmiður og einn þeirra sem munu nota aðstöðuna í Slippnum. Hann segir frá nærri aldargömlum trésmíðavélum sem eru í Slippnum og í fullkomnu lagi, ræðir um hvernig hann kynntist bandsöginni stóru tíu ára gamall og síðan um bátasmíðarnar, sérkenni báta sem smíðaðir voru í Fljótum, nefnir dæmi um gríðarlega blóðtöku þegar margir sjómenn úr Fljótum fórust í einu og sama óveðrinu og margar konur urðu ekkjur í sveitinni. Hann talar líka um einkenni í þessum bátum sem rekja má allt til víkingaskipanna og sitthvað fleira forvitnilegt.
7. apríl 2012 - 33. þáttur: Þorramatur og lýsi
Fluttur er lunginn úr erindum Sólveigar Ólafsdóttur (1964-) sagnfræðings og Laufeyjar Steingrímsdóttur (1947-) næringarfræðiprófessors, sem þær fluttu á fundi sem Íslenska vitafélagið hélt í Sjóminjasafninu Víkinni í Reykjavík 22. febrúar 2012. Sólveig fjallaði um þorramatinn sem er í huga þjóðarinnar eitthvað það þjóðlegasta sem um getur. Samt er það svo að hugtakið þorramatur er ekki nema um hálfrar aldar gamalt og sprottið frá framtaki Halldórs Gröndals og félaga sem stofnuðu veitingastaðinn Naustið í Reykjavík laust fyrir 1960. Laufey ræðir um sögu lýsisvinnslu á Íslandi og þau margvíslegu not sem hafa verið fyrir lýsið í aldanna rás. Lýsið var ein dýrmætasta útflutningsvara Íslendinga frá því á fjórtándu öld, aðallega af því að það var dýrmætt ljósmeti. En margvísleg hollusta lýsisins og notkun þess sem mýkingarefnis, við matargerð og fleira og fleira hefur gert að verkum að lýsið hefur margoft gengið í endurnýjun lífdaganna sem verðmæt framleiðsluvara. Og ekki síst á síðari árum hefur lýsið sem hollustuvara sótt mjög í sig veðrið enda mikilvægur D-vítamíngjafi.
14. apríl 2012 - 34. þáttur: Húni II.
Fjallað er um Húna II., stærsta íslenska eikarskipið sem enn er á floti og í notkun. Skagstrendingurinn Þorvaldur Skaftason (1949-) bjargaði skipinu frá eyðileggingu með því að kaupa það vélarlaust og illa til reika á tíu krónur austur á Seyðisfirði. Þorvaldur gerði skipið upp, setti í það nýja vél og rak Húna sem hvalaskoðunarskip í nokkur ár, lengst frá Hafnarfirði. Reksturinn var erfiður og Þorvaldur kom skipinu í hendurnar á áhugamönnum á Akureyri sem vildu taka skipið að sér. Með góðum styrkjum var skipið keypt og afhent Iðnaðarsafninu á Akureyri en Hollvinafélag Húna rekur það í sjálfboðavinnu. Í þættinum heyrist í Þorsteini Péturssyni (1945-), skipasmið og fyrrverandi lögreglumanni, sem er einn af framámönnum Hollvinafélagsins, en einnig er rætt við þrjá duglega félaga af þeim stóra hópi sem heldur bátnum við og siglir honum, vélstjórana Val Sigurjónsson (1946-) og Ágúst Einarsson (1936-) og skipstjórann Jón Ellert Guðjónsson (1936-). Þeir voru heimsóttir um borð í Húna þegar hann var í slipp á Akureyri fyrir páskana 2012.
21. apríl 2012 - 35. þáttur: Sögur af sjó og viðhaldi skipa
Þátturinn hefst á frásögn skipstjóra með yfir hálfrar aldar reynslu, Jóns Ellerts Guðjónssonar (1936-). Ellert segir frá ferli sínum á fiskiskipum, kaupskipum og varðskipum, og ræðir m.a. um svokallað AIS-kerfi sem sér um tilkynningaskyldu skipa og báta nú orðið og sýnir sjófarendum hvaða skip og bátar eru í nágrenninu. Valur Sigurjónsson (1946-) vélstjóri lenti stundum í viðgerðum á gufuvélum í togurum meðan þeir voru enn við lýði og segir frá því til dæmis þegar hann þurfti að fara inn í sjóðandi heitt rými til viðgerða og hélst ekki við nema nokkrar mínútur í einu. Ágúst Einarsson (1936-), sem líka er vélstjóri, segir frá atvikum þar sem hafa þurfti hraðar hendur og útsjónarsemi við viðgerðir á skipsvélum úti á rúmsjó en hann segir líka frá því hvernig hann læknaði sig af sjóveiki með því að pína í sig hafragraut. Þótt grauturinn kæmi aftur og aftur upp úr honum og á diskinn hélt hann áfram að skófla honum í sig þar til hann var búinn. Loks er spjallað við feðgana Lúðvík Gunnlaugsson (1957-) og Gunnlaug Traustason (1937-) sem voru að gera við Trausta EA um leið og Húni II. var í slipp á Akureyri í apríl 2012. Trausti er furubátur með eikarböndum sem Lúðvík forðaði frá glötun á Ólafsfirði fyrir nokkrum árum. Þeir hafa báðir gríðarlega gaman af að halda honum við og ánægjan skín úr augunum á þeim. Gunnlaugur rak skipasmíðastöð ásamt Trausta Adamssyni um árabil og þeir smíðuðu meðal annars Hildi sem nú er skonnorta hjá Norðursiglingu á Húsavík. Gunnlaugur sagði með blik í auga að hann langaði til að smíða nýjan bát en það væri líka gaman að gera Trausta upp.
28. apríl 2012 - 36. þáttur: Hraun á Skaga
Heimsótt eru hjónin Merete Rabølle (1967-) og Steinn Rögnvaldsson (1957-), bændur á Hrauni á Skaga. Steinn segir frá smábátaútgerð sinni sem hann rekur nú orðið frá Skagaströnd en áður var gert út frá Hrauni. Hann er með fimm tonna trillu sem hann gerir út í félagi við bræður sína og nágranna, bæði á línu og grásleppunet. Grásleppuhrognin vinna þeir sjálfir á Skagaströnd en selja fiskinn á fiskmarkaðnum þar. Steinn ræðir um útgerðina og veiðiskapinn, gæftir í vetur og ástandið í sjónum úti fyrir Norðurlandi sem hann segir að sé mjög gott um þessar mundir. Til dæmis kom krían upp pattaralegum ungum í fyrrasumar og nóg æti virðist vera fyrir hana og aðra sjófugla öfugt við það sem er vestan- og sunnanlands. Síðan segir Merete frá því hvernig leið hennar lá að Hrauni frá Danmörku þaðan sem hún er. Hún segir frá lífinu á Hrauni, búskapnum og hlunnindanýtingu, en ræðir líka um framtíð byggðar á Skaga þar sem mjög hefur fækkað undanfarna áratugi, möguleikana sem hún sér, til dæmis að selja svalandi og frískandi norðanáttina.
5. maí 2012 - 37. þáttur: Skrímslasetur og farandverkamenn
Bílddælingurinn Valdimar Gunnarsson (1958-) segir frá Bíldudal æsku sinnar. Þá stóð Bíldudalur í blóma, baunaverksmiðjan fræga var við lýði, margir rækjubátar og fleiri fiskibátar gerðir út og þar fram eftir götunum. Síðan hefur byggðinni hnignað mjög og líklega hvergi fækkað eins mikið í íslensku sjávarþorpi á síðari árum. Brottfluttum Bílddælingum sveið þetta og vildu gera eitthvað til að hressa gömlu heimabyggðina við. Þá var sett af stað bæjarhátíðin Bíldudals grænar og upp úr henni spratt hugmyndin um Skrímslasetur sem síðan er orðið að veruleika. Valdimar lýsir þeirri uppbyggingu og hvernig setrið hefur aukið og bætt sjálfsmynd Bílddælinga. Nú er komin kalkþörungavinnsla þar, eitt fyrirtæki byrjað með laxeldi og annað í startholunum og framtíðin björt að mati Valdimars. Þá segir Tolli (Þorlákur Morthens) (1953-) frá lífi farandverkafólks sem vann í fiskvinnslu á áttunda og níunda áratugnum, menningunni kringum það, misjöfnum aðbúnaði og baráttu fyrir betri kjörum.
12. maí 2012 - 38. þáttur: Byggðasafn Vestfjarða
Varðveisla báta og bátasmíðaiðnarinnar er eitt af aðalsmerkjum Byggðasafns Vestfjarða. Safnið á nokkra báta og allt upp í eikarskipið Maríu Júlíu sem var fyrsta björgunarskip Vestfirðinga og þjónaði líka sem varðskip, meðal annars í fyrsta þorskastríðinu við Breta. María Júlía bíður þess nú að verða gerð upp í sem næst upprunalegri mynd svo hún megi þjóna sem skemmtiferðaskip við Vestfirði og fljótandi safngripur í leiðinni. Og fleiri bátar eru á ýmsum stigum viðgerðar og endursmíði hjá safninu, meðal annars trillan Jóhanna sem var rómað sjóskip og þykir einstaklega falleg. Við heyrum í Magnúsi Alfreðssyni (1956-) sem vinnur við að endursmíða Jóhönnu, en fyrst segja þeir Jón Sigurpálsson (1954-) safnstjóri og Björn Baldursson (1966-) safnvörður frá húsum Byggðasafnsins í Neðstakaupstað, bátunum sem safnið á, slippnum og varðveislu hans, en einnig er farið um borð í Maríu Júlíu til að heyra um sögu hennar og áform safnsins með hana.
19. maí 2012 - 39. þáttur: Sjósókn frá Bolungarvík í þúsund ár
Finnbogi Bernódusson (1947-), vélsmiður og sagnaþulur í Bolungarvík, ræðir um sögu sjósóknar í Bolungarvík við Ísafjarðardjúp, allt frá því þegar Þuríður sundafyllir nam þar land síðla á landnámsöld. Finnbogi segir frá staðháttum í Bolungarvík þar sem stutt er á gjöful mið, en þar voru líka góðar aðstæður til að setja upp báta og sveitin gat séð sjómönnum fyrir ýmsu sem þá vanhagaði um, ekki síst sýrunni í kútinn sem löngum var eini kosturinn í dagróðrunum. Löngum hefur verið fjölmennt í Bolungarvík á vertíðum og Finnbogi telur að snemma hafi þar verið mörg hundruð og upp í þúsund manns og hundrað bátar og því hefur fylgt mikið líf og fjör. Hann segir frá bolvíska bátalaginu, tvístöfnungunum sem minna á skip landnámsmannanna, ræðir um hvers vegna línuveiðar hafa verið stundaðar frá Bolungarvík en ekki netaveiðar og fleira. Inn á milli frásagna Finnboga er litið inn í hinni endurgerðu verbúð í Ósvör í Bolungarvík þar sem Jóhann Hannibalsson safnvörður segir gestum frá ýmsu sem þar er að sjá, bátnum Ölveri, sjóklæðunum og fleiru.
26. maí 2012 - 40. þáttur: Fornleifarannsóknir Ragnars Edvardssonar
Ragnar Edvardsson (1964-), fornleifafræðingur á Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Vestfjörðum, segir frá rannsóknum sínum á fornminjum við ströndina, einkum á Ströndum og Vestfjörðum. Ragnar hefur skoðað fornar verstöðvar og segir að þorskurinn hafi alla tíð verið undirstaða efnahags Íslendinga, miklu frekar en sauðkindin. Komið hafi í ljós vísbendingar um að á síðmiðöldum hafi verstöðvar þróast í átt til að verða fiskiþorp. Einnig vinnur Ragnar að rannsóknum á póstskipinu Fönix sem fórst við Snæfellsnes í janúar 1881 og með því nær allur farmur og póstur sem væntanlegur var til landsins um veturinn. Þar sé einstætt tækifæri til ýmiss konar rannsókna en einnig verði að tryggja að skipið fái að vera í friði og ekki sé rænt úr því munum. Vera baskneskra hvalveiðimanna hefur líka verið Ragnari hugleikin og hann hefur tekið þátt í að rannsaka leifar hvalveiðistöðva Baska á Ströndum ásamt Magnúsi Rafnssyni sagnfræðingi og fleirum. Þar eru merkilegar minjar sem varpa ljósi á stóriðju sautjándu aldar, lýsisvinnslu úr hvalspiki, iðnað sem lítið sem ekkert er skrifað um í heimildum af einhverjum ástæðum. Ragnar leggur áherslu á að saga Íslendinga og saga þorsksins sé samtvinnuð og þorskurinn sé enn sá efnahagslegi grunnur sem hann hefur alltaf verið. Einnig er rætt um rekavið og járnvinnslu sem Ragnar telur að hafi verið sterkari þættir í efnahagssögu Íslendinga. Járn unnið úr íslenskum mýrarrauða hafi verið mjög gott og auðvelt í vinnslu, miðað við í Noregi til dæmis, og rekaviðurinn hafi skipt verulegu máli sem byggingarefni. Á þetta geti frekari fornleifarannsóknir við sjávarsíðuna líka varpað betra ljósi.
Umsjón og tæknivinnsla: Pétur Halldórsson |