Húni II. |
Húni II. er stærsta eikarskip smíðað á Íslandi sem enn flýtur, smíðaður í Skipasmíðastöð KEA á Akureyri 1962-1963. Skipið var í fyrstu á síldveiðum en síðar á þorskanetum, trolli, humar, línu, netum og svo aftur á síld. Um 1990 lenti skipið á kvótakerfisflakki þegar tilhneiging var til að úrelda gamla báta, ekki hvað síst trébáta og fórna þeim fyrir önnur skip. Árið 1994 keypti Þorvaldur Skaptason bátinn á Seyðisfirði fyrir 10 krónur. Báturinn var þá vélarlaus og beið þess að vaskir menn settu hann á áramótabrennu. Þorvaldur hraktist með bátinn á milli staða og reyndi að finna honum hlutverk. Endaði með hann í hvalaskoðun í Hafnarfirði ásamt konu sinni Ernu. Árið 2004 var bátnum siglt til Akureyrar og þar var stofnað um hann félag – Hollvinafélag Húna II. Árið 2006 keyptu ríki, bær og KEA skipið af Þorvaldi og færðu Iðnaðarsafninu að gjöf. Gjöfinni fylgir sú yfirlýsing að Hollvinafélag Húna II. skuli taka að sér rekstur skipsins. Þannig hefur það verið síðan og er Húni II. gerður út fyrir ferðmenn, skóla og einstök verkefni. Hollvinafélagið ásamt öðrum gaf út bæklinginn Verum klár, borðum físk. |