Í gamalli skemmu í miðbæ Reykjavíkur er eini neminn í bátasmíði á Íslandi að gera upp gamla trébáta og forða þeim frá því að verða eyðileggingunni að bráð. Jón Ragnar og nokkrir vinir hans hafa stofnað Bátavinafélagið Súðbyrðing og komið sér upp aðstöðu til að gera upp gamla trébáta. Félagið hefur leitað uppi báta sem lágu hér og þar um landið og komið þeim undir þak til viðgerðar og endurnýjunar. Nýlega tóku þeir í fóstur árabátinn Sumarliða sem smíðaður var 1867 fyrir Skúla Skúlason í Fagurey á Breiðafirði. Jón Ragnar er einng varaformaður Íslenska vitafélagsins - félags um íslenska strandmenningu. Í þeim félagsskap er einnig reynt að vekja fólk til umhugsunar, bæði um bátaarfinn og annan menningararf við strendur landsins.
Lærifaðir Jóns Ragnars í bátasmíðinni er Hafliði Aðalsteinsson,bátasmiður og einn forkólfa Bátasafns Breiðafjarðar á Reykhólum.
Auður hafs og stranda (júní 2010)
Í byrjun maí 2010 hittust evrópskir þátttakendur í Fishernet á Íslandi. Byrjað var á að sýna þeim nokkra valda staði á Íslandi þar sem vel hefur tekist til í uppbyggingu og nýtingu menningararfsins við sjávarsíðuna. Sjóminjasafnið í Reykjavík - Víkin, bátaviðgerðir hjá Jóni Ragnari og grásleppuskúrarnir við Grímsstaðavörina voru þeir staðir sem litið var við í Reykjavík. Síðan var haldið á Siglufjörð, kvöldverður snæddur á bryggjusporðinum í Bátahúsi Síldarminjasafnsins og hlustað á rímnakveðskap heimamanna. Daginn eftir var siglt með einu skonnortu landsins, Hauknum, til Húsavíkur og reyndi þá á sjóhreysti manna.
En allir komu þeir aftur og enginn þeirra dó. Eftir fundarsetur og kynningu á Húsavíkurbæ var loks haldið til Akureyrar, fundað enn meira og haldin ráðstefna undir heitinu: Auður hafs og stranda - frumkvæði og sköpunarkraftur til nýtingar menningararfs.
Ráðstefnan tókst í alla staði vel og erindin bæði fróðleg, skemmtileg og ógnvekjandi. Lítil skilma/fiskifæla stal þó senunni og varð til þess að samgönguráðherra hélt aukaávarp. Skilman er afrakstur samstarfs Fishernets og Iðngarðanna-Grasrót og birtist í formi bréfaklemmu/bókamerkis sem gerð er úr viði, með upplýsingum í lítilli bók, sem gerð er m.a. úr roði. Þarna er menningararfurinn nýttur til nýsköpunar og fræðslu. Afrakstur þessa samstarfs hefur orðið til þess að aðstoða hóp fólks sem áður var án vinnu, til að skapa sér atvinnu til framtíðar við gerð nytjalistar og minjagripa.
Ganga fjörulallans frá vita til vita (júní 2010)
Byggðasafnið í Garði vex og dafnar og aðsókn eykst ár frá ári. Í Garðinum eru menn stórhuga, en taka eitt skref í einu og huga vel að eigin sögu og rótum. Á síðustu misserum hefur Fishernet lagt þeim lið við uppbygginguna, nú síðast við göngu á Jónsmessu.
Á Jónsmessunótt glitra óskasteinar í tjörnum, jarðargróður er þrunginn vaxtarmagni og lækningarmætti, döggin hreinsunarmætti. Því velta menn sér naktir í dögginni. Grasa- og galdrakonur fara á kreik og tína jurtir sínar sem aldrei eru máttugri en þessa nótt. Álfar sjást á ferli og kynjaverur sveima á heiðum og í holtum.
Kannski voru þeir ekki allir mennskir, þátttakendurnir í göngu fjörulallans frá vita til vita á Reykjanesi. Í það minnsta birtust mun fleiri til leiks í upphafi göngu en áður höfðu skráð sig.
Dagskráin hófst með erindi um sjóskrímsli og fleira sem Þorvaldur Friðriksson, skrímslafræðingur hélt. Eftir erindi hans var öllum ljóst að hópurinn gæti átt von á ýmsum uppákomum og kannski væri ekki allt sem sýndist. Áttatíu manns lagði síðan af stað í gönguna frá Stafnesvita að Garðskagavita undir leiðsögn sérfróðra manna. Kannski hefur veðurblíðan verið svipuð og þegar Tómas Guðmundsson orti:
Í vestri sólin sígur og slen á skóga hnígur, og prúðar stjörnur stara á stlltu, bláu sundin. En líf í limið færist og laufið hægan bærist, því álfaflokkar fara til fundar inn í lundinn.
Það er þegar ákveðið að framvegis verður ganga fjörulallans á Reykjanesi á Jónsmessunótt og rifjaður upp ýmiskonar fróðleikur um lífið við sjávarsíðuna.
Jónsmessuhátíð Síldarminjasafnsins 2010 (júní 2010)
Það er orðin árlegur viðburður að Síldarminjasafn Íslands haldi Jónsmessuhátíð með málþingi að degi og söngskemmtun um kvöldið undir heitinu "Á frívaktinni - óskalaga þáttur sjómanna í beinni útsendingu". Á frívaktinni er þjóðþekktur einstaklingur á sviði sjómannatónlistar heiðraður. Að þessu sinni var það Ómar Ragnarsson sem mætti ásamt hljómsveit hússins.
Málþingið fjallaði um bátavernd og var lokahnykkur á samstarfsverkefni Síldarminjasafnsins og safnsins í Gratangen í Noregi.
Dagskráin:
Laugardagur 26. júní. Grána kl. 13:30
Málþing: Bátavernd og endurheimt fornrar verkmenningar Lokaþáttur samvinnuverkefnis Síldarminjasafnsins og Bátaverndarmiðstöðvar Norður-Noregs. Fundur í samvinnu við Samband íslenskra sjóminjasafna (SÍS). Fundarstjóri: Rósa Margrét Húnadóttir, safnvörður Síldarminjasafnsins.
13:30 Setning. Örlygur Kristfinnsson, safnstjóri. 13:35 Eiríkur Þorláksson, fulltrúi menntamálaráðuneytisins flytur ávarp. 13:45 Björn Lillevoll, bátsmiður. Bátavernd í Noregi og samstarf við Ísland. 14:00 Stutt kynning á bátasmíðaverkefni Gratangens og Siglufjarðar. 14:15 Gunnar Marel Eggertsson bátasmiður. Íslendingur smíðaður. 14:30 Haraldur Ingi Haraldsson, Gásum. Íslenski miðaldabáturinn. 14:45 Kaffihlé 15:05 Jón Sigurpálsson, safnstjóri og formaður SÍS, kynnir verkefni Byggðasafns Vestfjarða. Forðað úr glatkistunni - horfin handtök lifna við. 15:20 Ágúst Ó. Georgsson, Þjóðminjasafninu. Átak um bátavernd. 15:35 Sigurbjörg Árnadóttir, formaður Íslenska vitafélagsins og verkefnisstjóri Fishernets. Samvinna og heildarsýn. 15:50 Fulltrúi Reykhólahópsins segir frá bátasmíða- og verndarverkefnum Breiðfirðinga. Heimildarmyndin Súðbyrðingur eftir Ásdísi Thoroddsen sýnd (57 mín.)
Til málþingsins var boðið öllum áhugamönnum um vernd báta og íslenskra bátasmíðahefða. Aðgangur ókeypis en kaffi selt í fundarhléi. Málþingið var vel heppnað, þó svo það hafi ekki verið mannmargt. Þátttakendur kvöddust með það að fyrirheiti að hittast að hausti og halda samstarfinu áfram.
Norsk-íslenska afkvæmið Soffía
Afrakstur samstarfsverkefnis Síldarminjasafnsins og Nordnorsk fartøyvernsenter og båtmuseum í Gratangen er nú lokið. Báturinn Soffía fór í jómfrúarferð sína í október á síðasta ári og var síðan máluð og geymd inni á safni. Áður en haldið var á sjóinn fór Örlygur með stutta sjóferðabæn: „Fleyið blessi og farmenn þess faðirinn góði og vísi.“
Í sumar er ætlunin að Soffía verði nýtt á sjónum. Bátsverjar í jómfrúarferðinni voru þeir Skúli Thoroddsen, smiður og Örlygur Kristfinnsson, safnstjóri. Á myndinni er ekki annað að sjá en að áratökin séu samstillt hjá þeim félögum. Það eru ófá handtökin sem liggja að baki smíði báts og samstarfið við Gratangen hefur reynst mjög lærdómsríkt og gjöfult. Á málþingi um bátavernd og endurheimt fornrar verkmenningar, sem var lokahnykkur verkefnisins, sagði yfirbátasmiðurinn Björn Lillevoll frá bátavernd í Noregi og smíði Soffíu. |