Gull úr greipum Ægis konungs - Grímsstaðavör |
Gert út frá Grímsstaðavör Grímsstaðavör er ein af sjö vörum við Skerjafjörð og sú þeirra sem lengst var róið frá. Betri lending var talin vera í Grímsstaðavör en í öðrum vörum við Skerjafjörðinn, meðal annars vegna skerja fyrir utan sem drógu úr öldunni. Vörin er kennd við bæinn Grímsstaði á Grímsstaðaholti. Grímsstaðaholtið afmarkast af Suðurgötu, Starhaga, Ægisíðu og Hjarðarhaga. Grímur Egilsson reisti sér býli á þessu svæði árið 1842 sem hann nefndi Grímsstaði. Fljótlega var farið að kenna holtið við býlið. Síðasti Grímsstaðabærinn stóð nálægt gatnamótum Dunhaga og Ægisíðu. Grímsstaðavörin var þekktust fyrir útgerð grásleppubáta síðustu áratugina, en áður fyrr var ekki síður gert út á þorsk og ýsu. Þegar mest var voru 16 bátar gerðir út frá vörinni. Þrír til fjórir réru alltaf en hinir um helgar eða þegar tími gafst til frá öðru. Tíðarfarið réði því hvaða daga var hægt að róa. Björn Guðjónsson gerði síðastur út frá Grímsstaðavör, eða allt til ársins 1998.
Á kreppuárunum var veitt fé í atvinnubótarvinnu við hafnargerð í Grímsstaðavör. Byrjað var að hlaða garð einn mikinn og átti hann að verða upphaf bryggjugerðar í vörinni. Hætt var við garðinn í miðjum klíðum vegna þess að menn höfðu ekki trú á höfn í vörinni vegna þess hve mikið útfiri var við fjörðinn. Einnig að í vestanátt myndi flóðið standa beint upp á höfnina. Menn álitu því að vænlegra væri fyrir bátana í Grímsstaðavör að fá teina og sleða, en bryggju. Brautir Garðar, Lambhóll og Þormóðsstaðir Garðar eru við núverandi gatnamót Ægisíðu og Lynghaga. Byggð reis í Görðum um 1860. Sigurður Jónsson, sem frægur var fyrir umsvifamikla útgerð og fiskvinnslu, var ávallt kallaður eftir húsinu, en hann keypti það árið 1892. Núverandi íbúðarhús í Görðunum er talið vera frá 1882-1883. Lambhóll var býli úr landi Skildinganess. Það er jafnvel talið að á þessum slóðum hafi verið lambhús frá Skildinganesi. Núverandi hús í Lambhól eru fyrir neðan Ægisíðu, milli Þormóðsstaða og Garða en nær sjónum. Þormóðsstaðir eru rétt við Lambhól og Garðana. Í heimildum er fyrst getið um býli þar um 1850 en ekki er ljóst við hvern það er kennt. Á árunum 1912-1927 rak fiskveiðifélagið Alliance í samvinnu við aðra, lifrabræðslu á Þormóðsstöðum. Lifrabræðsluhúsið, Brenneríið, var strýtulaga og setti mikinn svip á umhverfið. Á Þormóðsstöðum voru einnig fiskreitir og fiskhús. Timburhúsin þrjú við Starhaga tilheyra fyrrum Þormóðsstaðabyggðinni. Hrognkelsi Rauðmagi og grásleppa þóttu sæmileg til átu en grásleppuhrogn þóttu aftur á móti ólystug fæða lengi vel og voru aðeins etin ef ekki var annað að hafa. Um miðja 20. öldina urðu þau hins vegar eftirsótt útflutningsvara og breytti það stöðu hrognkelsaveiðanna mjög. Undanfarna ártugi hafa grásleppuhrogn verið hátt verðlögð. En neysla á rauðmaga og grásleppu hefur dregist saman. Myndir Seinni mynd: Í október 2009 gaf Ragnar Á. Bjarnason ljósmyndir sem hann tók ca. 1941-1944 í og við Grímsstaðavörina. Ljósmyndirnar eru varðveittar á Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Heimildir
|