FISHERNET er heiti þriggja ára samevrópsks verkefnis sem hlotið hefur styrk frá Menningaráætlun Evrópusambandsins. Verkefnið miðar að því að varðveita, miðla og nýta menningararf sem tengist sjósókn, umhverfisþekkingu sjómanna og sérstakri menningu fiskveiðisamfélaga. Stofnun Vilhjálms Stefánssonar tekur þátt í verkefninu með áherslu á fiskveiðimenningu á Íslandi, Grænlandi og Færeyjum, en einnig verður haft samstarf við fjölmargar stofnanir, sérfræðinga og samtök sem á einn eða annan hátt sinna fiskveiðum og menningararfi á svæðinu.
Meginmarkmiðið er varðveisla dýrmætrar arfleifðar á sviði sjávarútvegs og fiskveiða á svæðinu. Áhersla verður lögð á miðlun upplýsinga og kynningu á því sem best hefur verið gert á þessu sviði í nútíð sem fortíð. Leitast verður við að veita aðstoð á þeim svæðum þar sem arfleifðin er að týnast (hefðir, byggingarlist, bátar, veiðiaðferðir, listir, störf, umhverfisþekking o.s.frv.).
Það eru þrjú grundvallaratriði sem gera sig gildandi í öllum þáttum verkefnisins:
1) þátttaka og samstarf við sem flesta í nærsamfélaginu: vekja athygli á starfinu, stofna hugmyndabanka, miðlun upplýsinga, 2) að leitast við að skapa störf eða nota arfleifðina til að úr verði efnahagslegur ábati, sem leiði til betri varðveislu og 3) fjölþjóðlegt samstarf og uppbygging á tengslaneti.
Önnur markmið þessa verkefnis eru margskonar upplýsingaöflun og að koma á samstarfsfundum er glíma við ólíka þætti fiskveiðiarfsins. Fyrsti samstarfsfundurinn mun leitast við að skilgreina hvað hugtakið fiskveiðiarfleifð þýðir og hvernig ná megi utan um verkefnið með sem bestum hætti. Aðrir samstarfsfundir munu fjalla um samfélagsgerð sjávarbyggða, fjárhagslega afkomu eða ramma um fiskveiðiarfleifð, hvernig nota megi staðbundna þætti og hluti svo sem báta, og loks úrvinnslu og samþættingu úr hinum ýmsu hornum Evrópu.
Það er við hæfi að þessi fyrsti vinnufundur verði haldinn á Stromness í Orkneyjum. Stromness er þorp sem byggðist upp vegna sjósóknar og athafnalífs tengdu sjávarútvegi. Staðurinn hefur þó orðið að laga sig að breyttum tímum; státar nú af nýtísku fiskveiðiflota en á sama tíma er leitast við að varðveita og hlúa að fiskveiðiarfleifðinni. Í landi er fisk- og skelfiskvinnsla. Bókmenntum, myndlist, sönglist og afþreyingu fyrir ferðamenn er einnig gert hátt undir höfði sem og tengslum þessara þátta við sjóinn.
Saga Stromness er aðeins ein af mörgum sem segja mætti frá eyjunum við Skotland. Viðlíka sögur mætti sækja frá meginlandinu og víða frá Englandi. Á samstarfsfundum er leitað eftir upplýsingum frá ólíkum fiskveiðisamfélögum ef það mætti verða til að auka skilning okkar á því hvaða ráðstafanir koma sér best og hvar erfiðleikarnir liggja þegar unnið er að varðveislu fiskveiðiarfsins.
Dagskrár samstarfsfunda eru byggðar þannig upp að samstarfsaðilum gefist tækifæri á að skýra sína eigin aðkomu að verndun fiskveiðiarfsins og hvað við getum lært hvert af öðru. Þá íhuga menn ólík verkfæri eða leiðir sem fara má við að skýra, kynna og gera arfinn spennandi í augum uppvaxandi kynslóða. Þar mætti nýta sér ljósvakamiðla, gagnvirkar sýningar, tölvur og fleira. Slíkar leiðir verða örugglega ræddar. Þá er gert ráð fyrir að gestir samstarfsfunda ræði staðbundnar lausnir út frá sjónarhólum aðildarlandanna fimm. Stefnt er að því að þarna verði lagðar línur sem fylgt verði áfram þegar leiðbeinandi aðgerðaráætlun verður sett saman til viðmiðunar fyrir þátttökulöndin.
Niðurstöður samstarfsfunda verða aðgengilegar með margvíslegum hætti. Fyrst og síðast er mikilvægt að fólk hittist og myndi með sér varanlegt net til upplýsingar. Í öðru lagi er gert ráð fyrir þvi að vefsíða verkefnisins birti stöðugt ferskar fréttir og niðurstöður einstakra landa. Skjöl á netinu verða í PDF sniði. Loks verður gerð einhvers konar lokaskýrsla verkefnisins, þar sem undirstrikað verður það sem best er gert á sviði verndunar fiskveiðiarfsins og hvernig það er notað til hagsbóta fyrir samfélagið. Lykilþátttakendur í þessu starfi eru: Spánn/Galicia (stjórn, samþætting) Noregur, Búlgaría, Ísland, Kýpur og Bretland.
|