|
Hér er hægt að nálgast gagnvirka kortið okkar sem við höldum áfram að þróa, laga og bæta við. Nú þegar eru komnar inn upplýsingar um söfn og setur sem tengjast sjávar- og strandmenningu með einum eða öðrum hætti og hvetjum við alla til að láta okkur vita ef eitthvað þykir vanta. Á kortinu er einnig að finna upplýsingar um alla vita á Íslandi og til stendur að bæta við fróðleiksmolum og myndum þegar slíkt efni rekur á fjörur okkur. Verið er að textasetja á tölvutæku formi sögur Steinars J. Lúðvíkssonar Þrautgóðir á raunastund og munum við setja inn á kortið nokkrar valdar sögur. Einnig verða upplýsingar um forminjar við sjávarsíðuna settar hér inn; ekki er útilokað að sæskrímsli muni láta á sér kræla og jafnvel standa vonir til að geta verið með efni úr ljósvakamiðlum, tónlist, þætti og myndir. Hér eru okkur lítil takmörk sett og allar hugmyndir um efni vel þegnar.