Saga íslenska vitans
Saga íslenska vitans er ung, en það var ekki fyrr en árið 1878 sem fyrsti vitinn við strendur Íslands var byggður. Það var á suðvesturhorni landsins, nánar til tekið á Valahnúk á Reykjanesi. Uppbyggingu vitakerfisins lauk með byggingu Hrollaugseyjavita árið 1954 en þá var ljósvitahringnum um landið lokað.
Eini vitinn sem byggður er af einkaaðila er vitinn á Dalatanga, milli Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar. Það gerði útgerðamaðurinn Otto Wathne árið 1895. Vitinn er sá elsti sem enn stendur uppi og er nú í umsjá Þjóðminjasafnsins.
1. desember 2003 var þess minnst að 125 ár voru liðin frá því fyrst blikkaði vitaljós á Íslandsströndum. Við það tilefni voru fyrstu sjö vitar landsins friðaðir. Það eru: Arnartangaviti í Skutulsfirði, Bjargtangarviti 1913. endurbyggður 1923. og 1948. Dyrhólaey 1927. Garðskagaviti hinn eldri 1897. Hríseyjarviti 1920 Malarrifsviti 1946 og Reykjanesviti byggður 1907.
Nú eru þeir ljósvitar við strendur landsins sem Siglingastofnun Íslands hefur umsjón með alls 104 að tölu en þá er ótalinn fjöldi innsiglingar- og hafnarvitar í eigu og umsjá sveitarfélaga.
Vitar á Íslandi Leiðarljós á landsins ströndum 1878-2002
Haustið 2002 gaf Siglingastofnun út bók um sögu vitaþjónustunnar á Íslandi: Vitar á Íslandi Leiðarljós á landsins ströndum 1878-2002. Höfundar bókarinnar eru: Guðmundur Bernódusson, Guðmundur L. Hafsteinsson og Kristján Sveinsson.
Í bókinni er saga íslensku vitaþjónustunnar rakin og greint frá uppbyggingu og rekstri vitakerfisins. Hlutverki vitavarðanna gerð skil og fjallað um byggingarstíl vitanna.
Bókin fékk viðurkenningu Upplýsingar - Félags bókasafns- og upplýsingafræða sem besta frumsamda íslenska fræðibókin fyrir fullorðna árið 2002.
|
Íslenskir vitar og ferðamenn |
Íslenskir vitar og ferðamenn er samantekt frá 2005, gerð fyrir Siglingastofnun Íslands og Húsafriðunarnefnd ríkisins. Höfundur er Rögnvaldur Guðmundsson hjá Rannsóknum og ráðgjöf ferðaþjónustunnar ehf. Er hér um að ræða greinargerð sem byggir á niðurstöðum úr tveimur könnunum, þar sem annars vegar var grafist fyrir um áhuga Íslendinga á vitum og höfnum, hins vegar um hvort erlendir ferðamenn hefðu gert sér ferð til að skoða íslenska vita á meðan á dvöl þeirra stóð. Í helstu niðurstöðum kemur m.a. fram að meirihluti aðspurðra Íslendinga hefur áhuga á vitum og höfnum, en einungis um 20% aðspurðra erlendra ferðamanna höfðu skoðað íslenskan vita í ferð sinni.
Íslenskir vitar og ferðamenn
|
|
Greinargerð um varðveislumat vita og tillögur um friðun |
Guðmundur L. Hafsteinsson vann greinargerðina fyrir Húsafriðunarnefnd, 27. júní 2003 og gerði tillögur um friðun vita. Farið er yfir byggingarsögu vitamannvirkja frá árinu 1878 til 1992 sem og aðferðarfræði 'gildismats' sem hægt er að nota til að meta varðveislugildi húss og hvaða lausnir eigi að velja þegar kemur að viðhaldi og viðgerð. Aðferðafræði þessi tekur m.a. til notkunargildis, aðgengis, umhverfislegs gildis, fágætis- og menningarsögulegs gildis svo fátt eitt sé nefnt. Að lokum eru settar fram tillögur um vita sem falla undir ákvæði laga um húsafriðun. Einnig má finna lista yfir varðveiðslumat vita hér.
Greinargerð um varðveislumat vita og tillögur um friðun |
Vitar - aðgengi, umhverfi, útivist |
Valdimar Harðarson vann þessa BS ritgerð árið 2004 hjá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri og fjallar m.a. um aðgengi almennings að vitum og ströndinni til útivistar, breytingar á rekstri vita og áhuga fólks á þessum mannvirkjum. Því er velt upp hvort tryggja eigi aðgengi almennings að vitum, sem eru í raun eign hans. Í niðurstöðum er meðal annars lögð áhersla á nauðsyn verndaráætlunar þar sem tekið er tillit til aðgengis almennings að vitum landsins.
Vitar - aðgengi, umhverfi, útivist |
Vitar sem hluti íslenskrar strandmenningar |
Magnús Skúlason hjá Húsafriðunarnefnd ríkisins hélt fyrirlestur á ráðstefnu um strandmenningu Íslands, stöðu hennar og framtíð á Radisson SAS hótel Sögu þann 5. október 2007. Að ráðstefnunni stóðu Íslenska vitafélagið, Ferðamálastofa, Ferðamálasamtök Íslands, Siglingastofnun, Þjóðminjasafn Íslands, Húsafriðunarnefnd, Fornleifavernd ríkisins og Samtök íslenskra sjóminjasafna. Hér að neðan má sjá myndir og teikningar af vitum á Íslandi úr bókinni Vitar á Íslandi.
Vitar sem hluti íslenskrar strandmenningar
|
|
|
|
|