Vermannaleikir |
Eftirfarandi er fengið úr bókinni Vermannaleikir sem Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna gáfu út í júlí 2003 og höfum við góðfúslega fengið leyfi til birtingar á þessu skemmtilega efni á vefsíðu Fishernet.is. Samantekt texta var í höndum Péturs Jónssonar en teikningar eru eftir Bjarna Jónsson listmálara. Helstu heimildir eru: Lúðvík Kristjánsson, Íslenskir sjávarhættir; Jón Árnason og Ólafur Davíðsson, Íslenskar gátur, skemmtanir, vikivakar og þulur.
Fiskveiðar hafa verið stundaðar við Íslandsstrendur frá upphafi byggðar. Róið var frá flestum bæjum sem lágu að sjó en einnig mynduðust sérstakar veiðistöðvar eða ver víða um land. Þessar veiðistöðvar voru fjölmargar um allt land alveg fram á 20. öld og voru þær einkum með þrennum hætti. Heimræði var þar sem róið var úr heimavör. Gagnstætt því var útræði eða útver. Þá fóru menn með báta sína og áhafnir að heiman á þá staði þar sem stutt var á miðin og bjuggu menn í verbúðum á meðan á vertíðinni stóð. Síðan var búsetan þar sem fjölskyldur áttu heimili allt árið í útverum og lifðu að stærstum hluta af því sem hafið gaf. Í Strandasýslu var víða heimræði og einnig allmörg útver. Á Gjögri var stórt útver í byrjun 18. aldar og stærsta hákarlaútver landsins á seinni hluta þeirrar aldar. Í Húnavatnssýslu voru víða ver og verbúðir, m.a. nokkrar á Heggstaðanesi, við Kallhamar á Vatnsnesi og Kálfshamarsvík á Skaga, en stærsta útverið í Húnavatnssýslu mun löngum hafa verið í Höfnum á Skaga - Hafnarbúðir. Oft var ekki róið vegna veðurs og þurftu menn að gera sér eitthvað til dundurs. Voru meðal annars leikir stundaðir. Utandyra glímdu menn eða fóru í útileiki og heimildir eru til um 38 útileiki, auk aflrauna og glímu, sem iðkaðir voru á verstöðvum. Ef menn hírðust innandyra var gripið í spil, glímt við gestaþrautir, teflt eða kveðnar rímur.
1. Að rífa ræfil upp úr svelliLeikmaður leggst endilangur á jörðina og leggur einhvern hlut þar sem hann hefur höfuðið. Rís síðan upp í sömu sporum og áður. Síðan setur hann vinstri hendi aftur fyrir bak en mjakar sér áfram á hægri hendi þar til hann nær hlutnum með munninum og stendur síðan upp með hann aftur. Ekki má koma við jörðu nema með fótum og hægri hendi og ekki stíga úr sporunum. Ef það mistekst er ræfillinn jafnfastur í svellinu og hann var áður. 2. HanaslagurHanaslagur er þekktur leikur þar sem allir keppa við alla. Menn eiga að hoppa um á öðrum fæti með hendur krosslagðar á bringunni. Síðan er kúnstin fólgin í því að fella andstæðinginn án þess að falla sjálfur eða stíga með báðum fótum til jarðar. Sá sigrar sem síðastur stendur uppi. 3. PokadrátturPokadráttur er ekki ósvipaður hráskinnaleik þar sem tekist var á um blautt skinn. Þá sitja menn flötum beinum á jörðinni, hvor móti öðrum með strigapoka sín á milli og takast á um hann. Sigur fékkst með því að ná til sín pokanum eða með því að rífa hinn úr sætinu. 4. HryggspennaÞar sem ungir menn koma saman fer ekki hjá því að þeir reyna með sér. Glíma var algeng, einnig tóku menn lausatök. Hryggspenna er ein leið til að skera úr um afl manna. Tveir standa á móti hvor öðrum og grípa höndum utan um andstæðinginn og takast þannig á. Sá sigrar er nær að knýja hinn undir sig. Að hafa undirtökin er orðtak sem er dregið af þessum leik. Ef annar hélt báðum höndum undir hendur andstæðingsins hafði hann mun vænlegri stöðu en ella. 5. HöfrungahlaupHöfrungahlaup eða höfrungastökk var einn algengasti vermannaleikurinn. Skipt er í tvö lið. Fremstu menn beygja sig fram með hendur á hnjám og næstu menn stökkva yfir þá og svo koll af kolli. Það lið sigrar sem kemur fyrr öllum sínum leikmönnum ákveðna vegalengd. 6. Að reisa horgemlingÞegar reistur er horgemlingur þá setjast leikmenn flötum beinum, setja hægri hendi undir vinstra hné og grípa í eyrnasnepil á hægra eyra. Með vinstri hendi er haldið í buxnastrenginn að aftan. Síðan reyna menn að standa upp án þess að missa tökin. Þetta er alls ekki auðvelt, en sagt er að þeir sem ekki geta reist horgemling hafi fallið úr hor. 7. Að sækja smjör í strokkinnÞessi leikur felst í því að tveir menn mynda nokkurs konar strokk. Þeir standa hvor á móti öðrum og leggja hendur á axlir hins. Klútur er síðan settur á jörðina á milli þeirra. Síðan skríður leikmaðurinn ofan í strokkinn, yfir hendur mannanna og niður og tekur smjörið (klútinn) upp með munninum. Aðalkúnstin er fólgin í að koma sér sömu leið úr strokknum aftur. Ef það tekst ekki var sagt að hann hefði kafnað í strokknum. 8. Að stökkva yfir sauðaleggAð stökkva yfir sauðalegg er einfaldur leikur en alls ekki eins auðveldur og menn gætu ímyndað sér. Sauðaleggur er lagður á jörðina fyrir framan tærnar á keppanda. Hann á síðan að halda um tærnar á meðan hann stekkur jafnfætis yfir sauðalegginn, bæði áfram og afturábak. 9. Að ríða til páfansÝmsar útgáfur af þessum leik tíðkuðust hér áður fyrr. Ein útgáfan er þannig að tveir fullhraustir menn bera á öxlum sér sívalan ás. Á honum miðjum situr ferðamaðurinn klofvega og lemur fótastokkinn, eins og á hesti væri. Kemur þá annar aðvífandi með bréf í hendi og pokaskjatta í hinni. Vill hann koma bréfinu með til páfans. Neitar ferðamaðurinn því. Grípur þá hinn til pokans og leitast við að fella ferðamanninn með því að slá miskunnarlaust í fætur hans. Ef hann nær að sitja af sér þessar barsmíðar hefur hann náð fundi páfa. Mest þótti gamanið ef ferðamaður hékk á höndum og fótum neðan í ásnum og sendandinn lét pokann ríða miskunnarlaust á fótum hans. Á hendur mátti aldrei berja, það var vítavert. 10. Að ganga á tunnuLeikurinn var fólginn í því að standa uppi á tunnu sem lá á hliðinni og láta hana velta sem lengst undir sér. Helst aftur á bak, án þess að falla. Best þótti gefast að botn væri í báðum endum tunnunnar. 11. ReiptogReiptog fór yfirleitt fram á milli tveggja skipshafna. Skipt var í lið og togast á. Markmiðið var að draga hitt liðið yfir línu sem dregin var á jörðina mitt á milli liðanna. 12. GlímaGlíma er þjóðaríþrótt Íslendinga og hefur lifað með þjóðinni allt frá landnámi. Hún var notuð til að skera úr um afl og hreysti manna eða til að gera út um deilur. Yfirleitt var glímt á sérstökum glímuvöllum utandyra og voru glímubrögð vermanna yfirleitt þau sömu og aðrir glímumenn notuðu, einkum voru notuð brögðin: klofbragð, hælkrókur, leggjarbragð og mjaðmarhnykkur. 13. SteinatökÍ mörgum verstöðvum voru steinatök. Þau voru sérvaldir misstórir steinar sem lyfta þurfti upp á stall eða færa til ákveðna vegalengd. Þegar sömu steinarnir voru notaðir við slíkt árum saman fengu þeir nöfn eftir stærð, t.d. amlóði, hálfsterkur, fullsterkur og alsterkur. Sérstök steinatök voru á Piltabúðum á Skaga, en ókunnugt er um nöfn á þeim.
|